ágúst 27, 2004

Tælenskur unaður!

Mér finnst fátt betra en góð tælensk máltíð.

Eftir að ég var búinn að labba af mér risa mangó Frapocino slirpy sjeik og villast aðeins um stræti London ... Maður getur stundum látið eins og maður sé bara að ráfa um til að kynnast borgum á afslappaðan ævintýranlega máta, en stundum er maður bara helvíti villtur ... gjörsamlega lost. Þegar maður telur sig vera að labba í ákveðna átt og síðan kemst maður er í raun að fara í allt aðra átt. mmm gaman ... sérstaklega þegar maður er að verða svangur. En ég ákvað að taka smá breik, ég fann sætan park sem heitir Green Park og settist niður og naut þess að fylgjast með fólki að borða ... smá pikknikk. Bretar á fertugsaldri með peysur bundnar yfir axlirnar, nartandi eitthvað lostæti úr gamaldags bastkörfu, sötrandi freyðivín. Á meðan var ungur maður sem var ekki Breti með peysu bundna yfir axlirnar, nartandi eitthvað lostæti ... heldur að brjóta saman legusólarbekki. mmm. örugglega djobbið sem honum hefur alltaf dreymt um.

Allaveganna eftir að hafa fylgst með öðrum að vinna, borða eða spila fótbolta í smá tíma, ákvað ég að það væri kominn tími til að fá mér eitthvað að borða. Hann Tjörvi vinur minn hafði mælt með tælenskum stað ekki langt frá Oxford Circus, sem heitir Patara. Eftir smá labb fann ég staðinn og þá komst ég að því að hann var aðeins dýrari en ég hafði gert mér grein fyrir. En matseðillinn í glugganum leit bara helvíti vel út og ég bara what the heck. Það var brugðaist annarlega við því að ég bað um borð fyrir einn, en samt á kurteisan máta. Þegar ég sat í forsalnum á meðan ég beið eftir borði mínu, sá ég að þetta var svolítið fínn staður og ég var í tætta gallajakkanum mínum sem sumir vilja meina að hafi átt að vera kominn úr umferð fyrir 10 árum ("my precious ... mine ... all mine" ekki það að einhver annar vilji eiga hann).

Eftir smá stund var mér vísað á lítið borð niðrí kjallara og sagt við mig "nice cosy table", sem það var. Ég fékk matseðilinn í hendurnar og það var ekki auðvelt að velja ... en vinur minn hafði mælt með nokkru. Í forrétt fékk ég mér gufusoðna risa hörpuskel í chilli engifer lime sósu. ó mæ gád. þetta var mjúkt, sterkt, sætt og súrt. ég slefaði og smjattaði, einmitt það sem maður á að gera á fínu veitingahúsi, en úff. ég sleikti skeljarnar sem hörpuskelfískurnar var borinn fram í. Eins og klassastað sæmir var ég spurður hvernig smakkaðist, ég leit upp alsæll, orðlaus og sveittur á skallanum. Fljótlega kom aðalrétturinn, fiskur (seabas) í rauðukarrý með myntu borinn fram í bananalaufi. ách ... nammi namm. slef og smjatt. Þegar hingað var komið gat ég ekki stoppað, mér var boðið að skoða eftirréttaseðilinn. Þegar ég var búinn að skoða hann í smá stund, kom þjón og spurði hvort að ég sæi eitthvað sem mér leist á ... ég hikaði í smá stund ... og gaf til kynna að ég væri alveg til í að panta fjóra eftirrétti. en það var búið að mæla með kókós ísnum, og ég lét vaða. ... ja hvað skal segja ... nema hann var mjúkur og crunchí, silkimjúkur og stökkur ... nammi namm namm ... aftur slef og smjatt. besti kókos ís sem ég hef smakkað.

Ég labbaði að lestarstöðinni alsæll og í transi, það hefði einhver getað stolið af mér tösku minni og mér hefði verið sama.

Var ég búinn að minnast á að mér finnst fátt betra en góð tælensk máltíð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home